14 Febrúar 2012 12:00

Á árunum 2008-2011 urðu nítján umferðarslys á gatnamótum Miklubrautar og Grensásvegar og átján á gatnamótum Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Þessir staðir skera sig eilítið úr en tvö önnur gatnamót á Miklubraut koma líka við sögu þegar haldið er áfram að skoða tölur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu. Á sama tímabili urðu fjórtán umferðarslys á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar og sömuleiðis á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar.  Í 5-6 sæti á listanum yfir hættulegustu gatnamótin á höfuðborgarsvæðinu eru gatnamót Sæbrautar og Kringlumýrarbrautar og gatnamót Stekkjarbakka, Skógarsels og Breiðholtsbrautar en á þeim báðum urðu tólf umferðarslys á árunum 2008-2011.

Þegar horft er á hættulegustu vegarkaflana á höfuðborgarsvæðinu koma bæði Garðabær og Kópavogur við sögu. Á Reykjanesbraut, á milli Vífilsstaðavegar og Urriðaholtsbrautar, urðu ellefu umferðarslys á fyrrnefndu tímabili og tíu á Hafnarfjarðarvegi, milli aðreinar að Digranesvegi að frárein frá Fífuhvammsvegi.

Staðirnir sem hér hafa verið nefndir koma trúlega fæstum á óvart enda mjög mikil umferð um þá alla og þúsundir ökutækja sem þar fara um á hverjum sólarhring. Þetta eru jafnframt svokallaðir svartblettir en lögreglan fylgist sérstaklega með umferð á fjölförnum gatnamótum og stofnbrautum á álagstímum enda er sýnileg löggæsla eitt af markmiðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þá er í samstarfi vegagerðar, sveitarfélaga og lögreglu leitast við að greina orsök óhappa á þessum stöðum og leita lausna.

Tilgangurinn með sýnilegri löggæslu þegar umferðarmál eru annars vegar er að fækka slysum í umferðinni en vel hefur miðað í þeirri baráttu undanfarin ár. Næstu daga verður áframhaldandi umfjöllun á lögregluvefnum um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu.

Heimild: Umferðarstofa

Gatnamót Miklubrautar og Grensásvegar.