1 Júlí 2008 12:00

Á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun, 1. júlí, lagði Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, fram til kynningar opinbera útgáfu mats embættis ríkislögreglustjóra frá því í júní 2008 á hættu af hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi hér á landi.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra, sem kom til sögunnar 1. janúar 2007, hefur lögum samkvæmt lagt mat á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi. Matið er birt sem greiningarskýrsla og fylgir hún hér með. Í skýrslunni er leitast er við að horfa fram á veg og segja til um líklega þróun á þeim sviðum sem það nær til.

Matið er hið fyrsta sinnar tegundar sem tekið er saman hér á landi. Við gerð þessa mats voru einkum nýttar skýrslur úr gagnabönkum lögreglu á Íslandi og upplýsingar, sem greiningardeild hefur aflað. Upplýsingar frá erlendum samstarfsaðilum greiningardeildar komu einnig að notum. Leitað var til sérfræðinga innan lögreglu auk þess sem nýttar voru opnar heimildir. Stuðst var við skilgreiningar og aðferðafræði Evrópulögreglunnar, Europol.

Greiningardeild ríkislögreglustjóra metur hættu á hryðjuverkum hér lága í byrjun júní 2008. Hins vegar er lögð þung áhersla á aukin umsvif skipulagðra erlendra glæpahópa á Íslandi. Þá eru íslenskir afbrotamenn ekki taldir síður stórtækir í skipulegum afbrotum.

Dóms- og kirkjumálaráðherra segir, að með kynningu á skýrslunni hefjist enn nýr áfangi í löggæslustarfi hér á landi. Með hættumatinu sé athygli beint að brýnum viðfangsefnum lögreglu. Í matinu felist leiðsögn um þau verkefni, sem hafa beri í huga í daglegum löggæslustörfum og við mótun framtíðarstefnu. Skýrslan sé staðfesting á hinu mikilvæga starfi, sem unnið er af greiningardeild ríkislögreglustjóra.

Í skýrslunni er tekið fram, að við hættumat vegna hugsanlegra aðgerða hryðjuverkamanna á Íslandi beri að hafa í huga, að lögregla á Íslandi búi ekki yfir forvirkum rannsóknarheimildum innan þess málaflokks og megi því ekki safna upplýsingum um einstaklinga eða lögaðila liggi ekki fyrir rökstuddur grunur um tiltekið afbrot. Möguleikar lögreglunnar hér til að fyrirbyggja hryðjuverk séu því því ekki þeir sömu og annars staðar á Norðurlöndunum. Þessu fylgi einnig að íslensk lögregla hafi mun takmarkaðri upplýsingar um mögulega ógn eða hættulega einstaklinga, sem kunni að fremja hryðjuverk.

Hjálögð fylgir opinber útgáfa á mati ríkislögreglustjóra á hættu á hryðjuverkum og skipulagðri glæpastarfsemi – júní 2008.