23 Nóvember 2011 12:00

Gamla bókasafnshúsið í Mjósundi var viðkomustaðurinn þegar lögreglan á höfuðborgarsvæðinu kom til fundar við lykilfólk í Hafnarfirði í gær. Lögreglustöð bæjarins er staðsett á Flatahrauni 11 en þaðan er einnig sinnt löggæslu í Garðabæ og á Álftanesi. Á fundinum var farið stuttlega yfir langtímamarkmið, stefnu og áherslur embættisins en megin tilgangurinn var að fara yfir þróun brota í Hafnarfirði árin 2008-2011. Á flestum sviðum er þróunin jákvæð en tölfræði frá fundinum má nálgast með því að smella hér.

Eftir kynningu lögreglunnar tóku við almennar umræður og m.a. var rætt um umferðarmál og fíkniefnaneyslu, eins og stundum áður á þessum fundum. Innbrot voru fundarmönnum einnig ofarlega í huga en Hafnfirðingar hafa líka orðið fyrir barðinu á innbrotsþjófum. Engu að síður horfir til betri vegar í þeim málum en innbrot í bænum fyrstu tíu mánuði ársins voru ívið færri en á sama tíma í fyrra og ennþá færri í samanburði við árið 2009.  

Lækurinn hefur löngum heillað yngstu kynslóðina.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is