4 Nóvember 2023 10:17

Tollgæslan, Lyfjastofnun og Alþjóðadeild ríkislögreglustjóra voru meðal þátttakenda í alþjóðlegri aðgerð INTERPOL sem beindist að haldlagningu á ólöglegum lyfjum sem keypt eru á netinu.
Alls tóku 89 ríki þátt í aðgerðinni sem bar nafnið Pangea XVI og stóð yfir frá 3-10 október sl.

Töluverður fjöldi smærri mála kom upp hér á landi í tengslum við aðgerðina. Á meðal þess sem lagt var hald á hér á landi voru steratengd og róandi efni sem keypt voru á netinu og bárust til landsins með póst- og hraðsendingum.

Á heimsvísu var meira en 1,300 ólöglegum sölusíðum lokað og lagt hald á lyf að andvirði rúmlega 7 milljón dollara auk þess sem 72 handtökur áttu sér stað. Jafnframt hófust 325 nýjar rannsóknir í kjölfarið á aðgerðinni.

Nánar má lesa um aðgerðina í fréttatilkynningu INTERPOL vegna Pangea XVI : Taking down the transnational crime groups threatening consumer safety