14 Ágúst 2017 11:31

Á fyrstu 7 mánuðum ársins 2017 hefur tollgæslan á Keflavíkurflugvelli lagt hald á mikið magn fíkniefna og mun meira en á sama tíma á síðasta ári. Í öllum tilvikum hafa efnin fundist við tollleit á farþegum á leið um Flugstöð Leifs Eiríkssonar, ýmist í farangri eða innvortis.

Alls hefur hald verið lagt á 16203,48 gr. af kókaíni af mismunandi styrkleika og 1950 ml af fljótandi kókaíni. Samkvæmt mati rannsóknarstofu samsvarar magn fljótandi kókaínsins 4500 gr. af kókaíni í neyslustyrkleika.

Þá voru haldlagðir 700 ml af fljótandi amfetamíni sem samkvæmt mati rannsóknarstofu samsvara 6998 gr. af efninu í neyslustyrkleika.

Loks var lagt hald á 196.5 gr. af metamfetamíni og 0.19 gr. af hassi.

Lögreglan á Suðurnesjum fer með rannsókn þessara mála. Um 20 sakamál er að ræða en sakborningar voru erlendir ríkisborgarar nánast í öllum tilvikum. Þeir hafa allir setið í gæsluvarðahaldi meðan á rannsókn og ákærumeðferð hefur staðið. Það fer eftir magni haldlagðra efna hverju sinni hvaða embætti fer með saksóknina. Lögreglustjórinn á Suðurnesjum annast saksókn í minni málunum en Héraðssaksóknari í þeim stærri.

Dómar hafa þegar fallið í  15 málum og refsingar verið fangelsisdómar frá 2 mánuðum til 3½ árs en gæsluvarðhaldstími kemur til frádráttar. Þá hafa efnin verið gerð upptæk.