19 Júlí 2005 12:00

Lögreglan á Hvolsvelli í samvinnu við Landhelgisgæsluna fór í hálendiseftirlit á TF-SIF í gær. Flogið var yfir helstu ferðamannastaði á Suðurlandshálendinu.

Þyrlan flaug m.a. yfir Þórsmörk, Fjallabaksleiðir syðri og nyrðri, Landmannalaugar og Veiðivötn.

Áhersla var lögð á að fylgjast með umferð ferðamanna um svæðið og var sérstaklega sjónum beint að utanvegaakstri. Fjöldi tilkynninga um slíkan akstur berst á hverju ári til lögreglunnar. Eftirlitinu var einnig beint að umferð almennt og ástandi ökumanna.

Þyrlan lenti í Landmannalaugum þar sem ferðamenn og skálaverðir voru teknir tali og lýstu þessir aðilar ánægju sinni með eftirlit lögreglunnar.

Þetta samvinnuverkefni Landhelgisgæslunnar og lögreglunnar á Hvolsvelli mun halda áfram það sem eftir lifir sumri og verða nokkrar slíkar ferðir farnar í viðbót. Þessar flugeftirlitsferðir eru liður í auknu eftirliti lögreglunnar á hálendinu. Lögregluliðin á Suðurlandi (Hvolsvelli, Vík og Selfossi) hafa gert með sér samstarfssamning um reglulegar ferðir um hálendið þar sem farið er á lögreglubifreiðum. Þessi þrjú embætti skipta með sér fjölförnustu ferðamannastöðunum á hálendinu.

Lögreglumenn hafa í ferðum sínum um hálendið beint sjónum sínum að umferðinni, ástandi ökumanna og ökutækja, samkvæmt framansögðu mega ferðamenn um hálendið því eiga von á að hitta á lögregluna hvenær sem er akandi eða fljúgandi.