13 Apríl 2006 12:00

Lögreglan á Hvolsvelli í samstarfi við Flugbjörgunarsveitina á Hellu fór í hálendiseftirlit um hálendið að Landmannalaugum. Farið var um Landmannaleið, inn á Dómadal  og síðan inn á Krakatindaleið og síðan til baka í Hrauneyjar og um Sigöldu að Landmannalaugum.

Flugbjörgunarsveitin á Hellu lagði til sérútbúna björgunarbifreið sem útbúin er sem sjúkrabifreið og með öllum þeim búnaði sem slíkri bifreið fylgir. Í áhöfn bifreiðarinnar voru hjúkrunarfræðingur og svo öflugur skyndihjálparmaður.

Ferðin gafst vel og voru fjallafarar almennt ánægðir með þesskonar eftirlit og þótti þetta gott framtak hjá lögreglunni að hafa með sér slíkan björgunarbúnað til þessa eftirlits.

Rætt var við töluverðan fjölda af fólki sem hafði lagt leið sína á hálendið í dag, enda einmuna veðurblíða í allan dag.

Lögreglan á Hvolsvell mun hafa vakandi auga með fjallaumferð þessa miklu ferðamannahelgi og kanna ástand ökumanna og ökutækja

.

Ástand þeirra ökumann sem lögreglan hafði tal af í ferð þessari var mjög gott og var ljóst að fólk var á ferðinni til þess að njóta náttúrunnar og veðursins sem var í dag.

Rétt þykir þó að benda á í lokin að áfengi og akstur fara aldrei saman, hvort sem ekið er í byggð eða á fjöllum og vilja lögreglumenn á Hvolsvelli hvetja fólk til að blanda akstri og áfengi ekki saman, en dæmi síðustu ára sanna að slíkt fer aldrei saman.

Meðfylgjandi myndir voru teknar í ferðinni.

Lögreglan ræðir við ferðalanga við Ljótapoll.

Rán Jósepsdóttir, hjúkrunarfræðingurog Atli Haukur Haraldsson, skyndihjálparmaður, félagar í Flugbjörgunarsveitinni á Hellu framan við björgunarsjúkrabifreiðina.

Búnaður í björgunarbifreiðinni.