27 Ágúst 2006 12:00

Lögreglan á Hvolsvelli fékk nokkrar tilkynningar frá landvörðum og vegfarendum á Fjallabaki, bæði í gærkvöld og fyrr í dag um hóp bifhjólamanna sem væru á ferð um svæðið og ækju greitt og ógætilega. Einnig var tilkynnt um að hjólunum væri ekið utan vega.

Lögreglan á Hvolsvelli leitaði liðsinnis Landhelgisgæslu Íslands til að fara á þyrlu Landhelgisgæslunnar í könnnunar- og eftirlitsflug um þetta svæði. Landhelgisgæslan lagði til TF-LÍF í þetta verkefni ásamt áhöfn, en tveir lögreglumenn frá Hvolsvelli fóru einnig með.

Farið var um Fjallabaksleiðir syðri og nyrðri, sem og í Strút, auk þess sem gönguleiðin Laugavegurinn var yfirfloginn frá Hrafntinnuskeri í Emstrur.

Ekki sáust nein ummerki um utanvegaaktstur á eða við þessar leiðar og slóða. Farið var vítt og breytt um hálendið á þessu svæði.

Hópur vélhjólamanna var stöðvaður á vegarslóða ofan við Hrauneyjar við Langöldu, rætt var við ökumenn hjólanna sem höfðu verið á ferðalagi um hálendið.  Enginn þeirra kannaðist við utanvegaakstur.

Þrír ökumenn torfærutækja voru stöðvaðir á Landmannaleið við Klofninga og voru þeir að koma úr dagsferð úr Hrafntinnuskeri.

Hér að neðan má sjá hvar lögreglumenn ræða við vélhjólamenn við Langöldu.