22 Júlí 2006 12:00
Lögreglan á Hvolsvelli hefur í vikunni farið tvær eftirlitsferðir um háleldið m.a. hefur verið farið inn á Sprengisand að Nýjadal, í Veiðivötn, Fjallabaksleiðir og í Landmannlaugar. Í dag var síðan þriðja ferðin farin en þá var farið í eftirlitsflug með þyrlu Landhelgisgæslunnar TF LÍF frá Hvolsvelli. Flogið var yfir Syðri Fjallabaksleið, Fljótshlíðarafrétt, Emstrur, Hvanngil, Álftavatn og austur fyrir Mælifell á Mælifellssandi. Flogið var einnig yfir Þórsmörk. Um þessar mundir er mikill fjöldi fólks á hálendinu og athygli vekur hve margir eru á gönguleiðinni milli Landmannalauga og Þórsmerkur, Laugaveginum. Gönguleiðin er gríðarlega vinsæl og sjá mátti víða nokkuð fjölmenna hópa saman á göngu. Talsverð bílaumferð var einnig um Emstrur og í Þórsmörk. Lögrerglumenn hafa orðið varir við mikla ánægju með eftirlit lögreglunnar á hálendinu en haft er samband og samvinna við skála- og landverði á viðkomandi svæðum. Ferðamenn hafa einnig lýst ángæju sinni með þetta eftirlit lögreglunnar. Meðfylgjandi ljósmynd var tekin af leiðangursmönnum, lögreglumönnum og áhöfn þyrlunnar, á Hvolsvelli við TF LÍF skömmu áður en lagt var upp í eftirlitsflugið í dag. Til stóð að koma viðgerðarmanni á Háskerðing og á Reykjafjöll til viðgerða á endurvörpum fyrir fjarskiptakerfi en það tókst ekki sökum þoku. Lögreglan á Hvoslvelli hefur um árabil átt mjög gott samstarf við flugdeild Landhelgisgæslunnar sem of hefur komið að eftirliti og björgunarstörfum lögreglunnar á hálendinu.