17 Ágúst 2012 12:00

Í gær, þann 16.08.2012, var maður handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar fyrir misnotkun skjals.

Maðurinn átti bókað flug til Kanada en er hann kom í vegabréfaskoðun í flugstöðinni framvísaði hann norsku vegabréfi sem grunsemdir vöknuðu um að hann væri ekki lögmætur handhafi að. Var hann því færður til frekari skoðunar þar sem grunurinn var svo staðfestur með andlitssamanburði. Maðurinn er nú til rannsóknar. Meðal annars er unnið að því að reyna að staðfesta hver maðurinn er svo og að athuga hvort hann kunni að vera eftirlýstur einhversstaðar.

Þetta er 21. skilríkjafölsunarmálið sem upp kemur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar á þessu ári. Á sama tíma í fyrra höfðu 15 skilríkjafölsunarmál komið upp í flugstöðinni.