18 Október 2013 12:00

Fundaherferð lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu með lykilfólki á öllum svæðum í umdæminu hélt áfram í gær, en þá var fundað með Hafnfirðingum. Farið var yfir stöðu mála og þróun brota í sveitarfélaginu, en sami háttur er hafður á á öllum þessum hverfa- og svæðafundum og hefur fyrirkomulagið gefist vel. Ómar Smári Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöðinni í Hafnarfirði, fór yfir stöðu mála og svaraði spurningum fundarmanna ásamt Stefáni Eiríkssyni lögreglustjóra, Margeiri Sveinssyni lögreglufulltrúa og Sævari Guðmundssyni aðalvarðstjóra.

Staða mála er almennt góð í Hafnarfirði og hefur innbrotum og þjófnuðum í bænum fækkað á milli ára. Samkvæmt könnun, sem lögreglan lét framkvæma, er yfirgnæfandi meirihluti íbúa í Hafnarfirði, eða 85%, ánægðir með störf lögreglu og telja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Þess má geta að fundurinn í Hafnarfirði var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má annars nálgast með því að smella hér.