15 Desember 2011 12:00

„Þetta kom skemmtilega á óvart. Það er nú ekki svo oft sem okkur er hrósað og sjálfur lít ég á aðstoð lögreglunnar við borgarana sem sjálfsagðan hlut. Mér líkar annars mjög vel að vera í lögreglunni og það veitir mér ánægju að geta hjálpað fólki,” segir lögreglumaðurinn Jóhann Birkir Guðmundsson sem í gær hlaut heiðursverðlaun Stúdentaráðs.

Upphaf málsins fá rekja til hjálpsemi lögreglumannsins fyrr í vikunni. Þá varð ungur námsmaður fyrir því óláni að bifreið hans varð bensínlaus í morgunumferðinni á Miklubraut. Sá var á leið í próf og mátti því engan tíma missa. Manninum til happs kom Jóhann Birkir honum til aðstoðar og ók með hann á næstu bensínstöð til að sækja nokkra lítra af bensíni. Að því loknu var námsmanninum ekið aftur að bílnum. Þar var bensíninu hellt á tankinn og síðan hélt maðurinn áleiðis í prófið.

Fyrir þessa greiðvikni veitti Stúdentaráð Jóhann Birki heiðursverðlaun ráðsins en myndin hér að ofan var tekin við það tækifæri. Það var Lilja Dögg Jónsdóttir, formaður Stúdentaráðs, sem afhenti Jóhann Birki viðurkenninguna en aðrir á myndinni eru Gunnar Hilmarsson, aðalvarðstjóri á lögreglustöð 1, og Heimir Hannesson, hagsmuna- og lánasjóðsfulltrúi Stúdentaráðs.

Þess má geta að Jóhann Birkir, sem er einn marga ungra og efnilegra lögreglumanna sem við eigum, útskrifaðist úr Lögregluskóla ríkisins á síðasta ári.