31 Október 2012 12:00

Ríkislögreglustjóri veitti í dag Guðmundi Guðjónssyni yfirlögregluþjóni heiðursviðurkenningu í tilefni af því að hann lætur af starfi yfirlögregluþjóns fyrir aldurs sakir eftir 39 ára starf í lögreglu.

Guðmundur hefur starfað hjá embætti ríkislögreglustjóra frá 16. nóvember 1998.  Frá 1. nóvember nk. mun Guðmundur taka við hlutastarfi sem aðstoðarmaður ríkislögreglustjóra.

Ríkislögreglustjóri þakkaði Guðmundi fyrir framlag hans til lögreglumála og afhenti honum heiðurspening úr gulli, en peningurinn var gefinn út af ríkislögreglustjóra í tilefni af 200 ára afmæli hinnar einkennisklæddu lögreglu árið 2003.

Guðmundur lauk sveinspróf í húsgagnasmíði árið 1968 og námi frá Lögregluskóla ríkisins árið 1975. Hlaut viðurkenningu fyrir góðan námsárangur.  Hann lauk námi fyrir yfirmenn lögreglu frá lögregluháskóla bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, árið 1993. Hann hefur auk þess setið ýmis námskeið fyrir lögreglumenn.

Guðmundur hóf störf sem lögreglumaður við embætti lögreglustjórans í Reykjavík, fyrst við almenna löggæslu, en í slysarannsóknadeild frá ársbyrjun 1976 til 1. ágúst 1977, er hann hóf störf sem rannsóknarlögreglumaður hjá rannsóknarlögreglu ríkisins. Starfaði hann þar aðallega við rannsókn auðgunarbrota og skipaður lögreglufulltrúi 1. ágúst 1985 við nýstofnaða deild innan rannsóknarlögreglu ríkisins, sem hafði með höndum rannsókn  skatta- og efnahagsbrota. Guðmundur var skipaður starfsmannastjóri hjá lögreglunni í Reykjavík 1. nóvember 1986, aðstoðaryfirlögregluþjónn við sama embætti 1. september 1987 og yfirlögregluþjónn 20. júní 1988. Hann var yfirlögregluþjónn rannsóknardeildar lögreglustjórans í Reykjavík á árunum 1988 til 1991, almennu deildar hjá sama embætti til 1. júlí 1997, er honum var á ný falin stjórn rannsóknardeildarinnar við breytingu á lögreglulögunum, sem m.a. fólu í sér að rannsóknarlögregla ríkisins var lögð niður og verkefni flutt frá henni til lögreglustjóra í héraði. Guðmundi var falið að gegna stöðu yfirlögregluþjóns við embætti ríkislögreglustjóra þann 16. nóvember 1998 og starfaði hann sem sviðsstjóri stjórnsýslusviðs embættisins fram til 31. október 2012. Hinn 1. apríl 1999 var hann skipaður formaður rannsóknarnefndar til að bera kennsl á látna menn, sbr. reglugerð nr. 401/1997. Hann lét af formennsku árið 2002.