24 Nóvember 2023 15:05

Laugardaginn 25. nóvember verða heimildir íbúa í Grindavík rýmkaðar til flutninga á munum sínum. Íbúum er áfram heimilt að fara inn í Grindavík til að sækja verðmæti og huga að eigum sínum frá kl. 9:00 – 16:00 en þá eiga allir að yfirgefa bæinn. Daglega fer fram mat á því hvort svigrúm verði til að halda óbreyttu fyrirkomulagi. Allar aðgerðir Almannavarna eru miðaðar út frá öryggi og hagsmunum ykkar íbúa Grindavíkur og til að auðvelda að koma ykkur fyrir á sem bestan hátt á nýjum stað, þótt tímabundið sé.

Áfram ríkir hættustig Almannavarna en líkur á fyrirvaralausu eldgosi eru taldar minni en áður var og svigrúm til þess að bregðast við eldgosi, eru taldar rýmri en áður. Öryggi ykkar er haft í fyrirrúmi og því gæti þurft að rýma bæinn með mjög stuttum fyrirvara.

Breytingarnar sem taka í gildi frá og með laugardeginum 25. nóvember felast í því að nú er hægt að fá heimild fyrir flutningabíla til að flytja eigur og þurfið þið Grindvíkingar að sækja um það inni á  Island.is. Aðgerðastjórn mun úthluta ykkur ákveðnum tíma til að fara inn með stóra bíla, og raða því eftir hverfum og götum eins og best er talið. Áfram er ykkur að sjálfsögðu heimilt að nota bíla þar sem einungis þarf almenn ökuréttindi, bílar sem eru allt að 3,5 tonn að heildarþyngd. Áfram er einnig heimilt að notast við kerrur.

Þau ykkar sem þurfið á aðstoð að halda við að nálgast og flytja eigur ykkar munið geta sent inn beiðni eða í gegnum þjónustugáttina á island.is í byrjun næstu viku. Í boði er að fá bæði flutningabíla og mannskap til flutninga. Ef þú þarft að nýta þér þessa þjónustu þarft þú, eða fulltrúi þinn að vera við pökkun og flutninga.

Tilhögun verður áfram eftirfarandi hætti:

 • Íbúar í Grindavík beðnir um að skrá sig á www.island.is og fá þar heimild til þess að fara inn. Heimildin mun berast fljótt. Einnig ef óskað er eftir að fara inn með flutningabíl, beiðni þess efnis mun vera sett inn á síðuna síðar í dag föstudag.
 • Þau ykkar sem nú þegar hafa fengið staðfesta skráningu á beiðni til að fara inn í húseign þurfið ekki að sækja um aftur.
 • Grindavík er lokuð fyrir öllum öðrum en íbúum bæjarins og þeim sem aðstoða íbúa.
 • Grindavíkurvegur er lokaður, en hægt er að aka Nesveg og Suðurstrandarveg.
 • Mælst er til þess að þið komið á eigin bílum, hámark 1 bíll á hvert heimili. Ekki er æskilegt að börn séu tekin með sökum aðstæðna á staðnum.
 • Áfram eru gámabílar, gámar eða gámaflutningatæki ekki heimilaðir.
 • Athugaðu að hvorki er virkt frárennsli né rennandi vatn þannig að ekki hægt að nota salerni í húsum í Grindavík.  Komið hefur verið fyrir salernum við grunnskólana tvo.
 • Taktu með þér vatn og önnur matföng fyrir daginn því ekki er hægt að nálgast slíkt í bænum.
 • Hafðu í huga að hús gætu verið ótrygg. Hægt er að hafa samband við viðbragðsaðila á staðnum.
 • Mikilvægt er að hvert og eitt heimili skrái hjá sér þau verðmæti sem tekin eru úr húsunum og hafi samband við sitt tryggingafélags vegna þess.
 • Eigendur húsa eru hvattir til þess að athuga með hvort hiti sé á húsum sínum. Ef svo er ekki má leita ráðlegginga hjá HS Veitum.
 • Iðnaðarmenn og íbúar verða að störfum í húsum þar sem hitaveita er ekki í lagi.
 • Íbúar eru hvattir til þess að ganga um og frá húsum sínum með þeim hætti, að komið geti til rýminga með stuttum fyrirvara.
 • Á meðan þú ert í Grindavík er afar mikilvægt að þú fylgir tilmælum viðbragðsaðila á öllum stundum ef/þegar þau verða gefin.
 • Athygli er vakin á að á sama tíma og íbúar fá aðgang er unnið að öðrum verkefnum í bænum.
 • Engar hömlur eru að aðgengi fjölmiðla, en þeir þurfa að fara um Suðurstrandarveg eða Nesveg.

Komi til rýmingar vegna hættuástands munu viðbragðsaðilar þeyta sírenum og ljósmerkjum á ökutækjum og þýðir það tafarlaus rýming á svæðinu samkvæmt rýmingaráætlun. Rýmingarleiðir úr bænum eru eftir Suðurstrandavegi eða Nesvegi.

Í undirbúningi er að senda út könnun til íbúa um stöðu flutninga á verðmætum og eignum af svæðinu svo betri yfirsýn fáist yfir stöðuna og mögulega flutningaþörf seinna meir.

Allar aðgerðir miðast við að Almannavarnakerfið sé í viðbragðsstöðu ef staðan breytist.