16 Desember 2015 10:00

Nýjar verklagsreglur ríkislögreglustjóra um meðferð og skráningu heimilisofbeldismála hafa nú verið í gildi í eitt ár. Unnið er eftir verklaginu á landsvísu. Tilgangur með verklagsreglunum voru meðal annars markvissari fyrstu viðbrögð lögreglu til þess að ná yfir brot sem sjaldan eru tilkynnt til lögreglu sem slík, hafa oft þann eiginleika að vera ítrekuð og að stigmagnast. Lögreglan notar tvo mælikvarða til þess að meta stöðuna í málaflokknum, sbr. hér að neðan.

Fjöldi tilkynninga til lögreglu

Samkvæmt verklaginu fellur undir heimilisofbeldi líkamlegt, andlegt og kynferðislegt ofbeldi (sem rúmast innan laganna) sem einstaklingur verður fyrir af nákomnum, og getur því verið um að ræða maka eða fyrrum maka, en einnig fjölskyldutengsl. Það sem af er ári hafa 766 heimilisofbeldistilvik verið tilkynnt lögreglu (þ.e. fram til 14. desembers), eða rúm 2 tilvik að meðaltali á dag. Þar af voru 519 tilvik af hendi maka eða fyrrum maka. Meiri upplýsingar um tíma tilkynninga o.fl. má sjá í afbrotatíðindum ríkislögreglustjóra fyrir nóvember (https://dev.logreglan.is/utgafa/tolfraedi/stadfestar-tolur/manadarlegar-uttektir/) .

Reynsla landsmanna af ofbeldi í nánum samböndum

Í byrjun desember var birt á vef lögreglunnar niðurstöður könnunar þar sem spurt var m.a. um reynslu íbúa af afbrotum á undangengnu ári og viðhorf til lögreglu 2015. Rannsóknin byggir á rúmlega 4.000 manna úrtaki landsmanna á aldrinum 18-75 ára, og var netkönnun lögð fyrir af Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands (sjá nánar https://dev.logreglan.is/anaegja-med-storf-logreglu/  ). Í könnuninni var nú í fyrsta skipti spurt um reynslu af ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka á undangengnu ári. Alls höfðu 5% landsmanna (alls 112 svarendur) orðið fyrir ofbeldi af hendi maka eða fyrrum maka (andlegu, líkamlegu og/eða kynferðislegu) á árinu 2014.

Á myndinni hér fyrir neðan má sjá hvers kyns ofbeldi þolandi hafði orðið fyrir af hendi maka eða fyrrum maka (hægt var að haka við fleira en eina tegund):

reynsla af heimilisofb_þol.2015

Mynd 1. Varðst þú fyrir einhverju af eftirtöldu af hendi maka eða fyrrum maka, árið 2014?

Þá var spurt hvort tilvik hafi verið tilkynnt lögreglu. 17% höfðu tilkynnt til lögreglu en 83% ekki. Af þeim sem ekki tilkynntu völdu um 60% svarmöguleikann „Varð ekki fyrir heimilisofbeldi“, þ.e. töldu sig ekki hafa orðið fyrir tilviki heimilisofbeldis þrátt fyrir hafa merkt við að hafa orðið fyrir tilviki af listanum (sjá lista á mynd 1).

Framvegis verður hægt að byggja samhliða á upplýsingum um fjölda tilkynninga og rannsókn á eigin reynslu íbúa, sem mun nýtast til að meta stöðu mála og árangur af vinnu lögreglu. Markmiðið með vinnunni er að tilkynningum fjölgi en til lengri tími fækki brotum og ítrekunum og stigmögnun minnki.