15 Nóvember 2023 10:29
  • 4% aukning tilkynninga um heimilisofbeldi og ágreining fyrstu 9 mánuði ársins, samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára.
  • Nær 70% heimilisofbeldismála eru gegn maka eða fyrrverandi maka.
  • Munur á milli hlutfalls íbúa og tilkynntra mála eftir lögregluembættum.

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrstu níu mánuði ársins 2023 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Lögreglan á landsvísu fékk 1.802 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila á tímabilinu.  Jafngildir það að meðaltali tæplega 7 slíkum tilkynningum á dag eða 200 tilkynningum á mánuði.

Skýrsluna má finna hér.

Um er að ræða 4% aukningu samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.  Meginbreytingin er að skráningum um tilkynningar um ágreining milli tengdra og skyldra hefur fjölgað um 6% á meðan tilkynningum um heimilisofbeldi hefur fækkað um 3% samanborið við síðustu þrjú ár.

Það gefur til kynna að í færri tilkynntum málum er grunur um brot og heimilisofbeldisverklag lögreglunnar því ekki virkjað. Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.

Algengustu tengslin maki eða fyrrverandi maki

Í 78% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í 68% tilvika var brotaþoli kona. Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þegar um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka eru 81% árásaraðila karlar og 75% brotaþola eru konur. Meðalaldur árásaraðila er 38 ár og árásarþola 35 ár.

Algengast er að tengslin séu makar eða fyrrverandi makar, eða 70% málanna. Þá varða rúmur fimmtungur málanna foreldra og börn, ótengd aldri barns.

Í skýrslunni má finna yfirlit yfir dreifingu heimilisofbeldismála skv. gögnum lögreglu og hlutfall íbúa í lögregluembættunum. Nokkur munur er á milli tilkynntra mála og hlutfall íbúa þrátt fyrir að ekki eru vísbendingar í árlegum þolendakönnunum lögreglunnar né farsældarvísum íslenskra æskulýðsrannsókna um að tíðni heimilisofbeldis sé mjög mismunandi á milli landshluta.

Ætíð er hægt að tilkynna mál til 112. Þá má finna upplýsingar um helstu úrræði vegna heimilisofbeldis á 112.is.

——–

Nánari upplýsingar veitir Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur hjá þjónustusviði Ríkislögreglustjóra, gudbjorgs@logreglan.is og Eygló Harðardóttir, verkefnisstjóri afbrotavarna, eyglohardar@logreglan.is