30 Október 2007 12:00

Það ríkti nokkur eftirvænting á Barnaspítala Hringsins þegar þrír fílefldir lögreglumenn komu þangað í heimsókn á dögunum. Spennan var ekki síst tilkomin vegna þess að sjálfur Lúlli löggubangsi var með í för en kappinn sá vakti mikla athygli hjá börnunum. Skemmst er frá því að segja að heimsóknin tókst í alla staði mjög vel en tilgangur hennar var m.a. að fræða krakkana um umferðarmál. Börnin höfðu líka margs að spyrja og þá vildu sömuleiðis flestir viðstaddra fá að setja upp lögregluhúfu og var það auðsótt mál.