21 Nóvember 2012 12:00

Hafnfirðingar virðast bara nokkuð sáttir við störf lögreglunnar en 84% þeirra telja hana skila góðu starfi við að stemma stigu við afbrotum. Þetta, og raunar ýmislegt fleira, kemur fram í netkönnun, sem ber yfirskriftina Reynsla íbúa höfuðborgarsvæðisins af lögreglu, öryggi og afbrotum. Niðurstöðurnar voru kynntar í Hvaleyri, fundarsal í miðbæ Hafnarfjarðar, þar sem fulltrúar lögreglunnar hittu lykilfólk Gaflara að máli í fyrradag. Vel var mætt á fundinn, sem var hinn fjörugasti, og umræður líflegar. Umferðarmál, forvarnir og málefni barna og unglinga bar m.a. á góma að ógleymdum innbrotum, en þeim hefur fækkað verulega á árinu.

Árangur lögreglu í þeim efnum hefur vakið nokkra athygli og var talsvert um það rætt á fundinum. Þessa fækkun innbrota ber þó ekki síður að þakka íbúunum sjálfum, sem eru bæði duglegir að láta vita um grunsamlegar mannaferðir og að koma áleiðis ábendingum um sitthvað sem gagnast við rannsóknir mála. Fækkun brota er því sameiginlegt verkefni allra, en vel hefur miðað á þeirri leið undanfarin misseri, ekki bara í Hafnarfirði heldur á höfuðborgarsvæðinu öllu. Þess má geta að fundurinn í fyrradag var sendur út í beinni útsendingu á netinu, en tölfræðina frá honum má nálgast með því að smella hér.

Frá Hafnarfirði.

Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is