8 Nóvember 2013 12:00

Undanfarnar vikur hafa fulltrúar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu hitt að máli lykilfólk á hverfa- og svæðafundum í umdæminu. Þetta hafa verið gagnlegir fundir, enda mikilvægt að heyra sjónarmið íbúanna, taka við ábendingum um það sem betur má fara og skiptast á skoðunum. Í gær var röðin komin að Kjósverjum, og að venju var fundurinn haldinn í Ásgarði. Hljóðið í hreppsnefndarmönnum var gott, en eins og á öðrum hverfa- og svæðafundum var farið vel yfir stöðu mála og þróun brota í sveitarfélaginu. 

Í Kjósarhreppi er margt til fyrirmyndar og því lítið um afbrot, en það sem helst veldur íbúunum áhyggjum þessar vikurnar er aukin umferð ferðamanna um sveitarfélagið og sú staðreynd að stundum er óvarlega farið. Hér er verið að vísa til þess að nú er sá árstími sem vinsælt er að skoða Norðurljósin og festa fyrirbærið á filmu. Vegna þessa hefur einmitt verið talsverð umferð um Kjósarskarðsveg, en ferðamenn hafa oftar en ekki verið við myndatökur í svartamyrkri á miðjum veginum og það skapar stórhættu. Þessu verður að breyta áður en slys hlýst af.

Eins og jafnan áður fengu fulltrúar lögreglunnar höfðinglegar móttökur í Ásgarði. Kjósverjar eru góðir heim að sækja, enda svignuðu borð undan kræsingum. Á fundinum voru einnig kynntar niðurstöður úr könnun, sem lögreglan lét framkvæma í vor, en alla tölfræði frá fundinum með Kjósverjum má nálgast hér.

Kjósarhreppur (tekið af kjos.is)