16 Nóvember 2011 12:00
Ásgarður í Kjósarhreppi var annar viðkomustaður lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og hans manna í árlegri fundaherferð embættisins með lykilfólki í umdæminu. Aðaltilgangur fundarins var að fara yfir stöðu mála og kynna tölfræði um þróun brota í hreppnum og var það fljótgert. Kjósverjar hafa blessunarlega að mestu verið lausir við innbrot á heimili en sumarhúseigendur á svæðinu hafa ekki sloppið alveg jafn vel. Nokkuð var um innbrot í sumarbústaði á árinu en sem betur fer hefur tekist mjög vel að upplýsa þessi sömu mál. Kjósverjar, líkt og aðrir íbúar á höfuðborgarsvæðinu, eru vel meðvitaðir um ágæti nágrannavörslu og ætla sér að efla hana ef eitthvað er.
Það var Árni Þór Sigmundsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn og stöðvarstjóri á lögreglustöð 4, sem fór yfir tölfræðina og sat fyrir svörum ásamt vaskri sveit manna frá LRH. Árni Þór hefur aðsetur á Krókhálsi 5b í Reykjavík en frá lögreglustöðinni þaðan er sinnt löggæslu í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Grafarvogi, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og á Kjalarnesi. Eitt og annað var rætt á fundinum en á meðal þess var dýraníð en slík mál komu upp í Kjósarhreppi á árinu. Í haust var tilkynnt um samskonar mál í Kópavogi en ekki er vitað hvort þau tengjast. Fólk var eðlilega slegið óhug en málin eru enn óupplýst. Tölfræðina frá fundinum í Ásgarði má nálgast með því að smella hér.
Blíðviðri (kaffikjos.is).
Ef óskað er eftir skjótri aðstoð lögreglu skal undantekningarlaust hringja í 112. Ef erindið er af öðrum toga, og þolir e.t.v. einhverja bið, vinsamlegast hafið samband við þjónustuver lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í síma 444-1000. Sömuleiðis er hægt að koma upplýsingum á framfæri um hvaðeina með því að senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is