3 Júlí 2007 12:00

Ég man ekki betur en málflutningur Ragnars H. í olíumálinu svokallaða, sem verjanda eins sakborninga, hafi byggst á þeim rökum að 10. gr. samkeppnislaga væri óskýr refsiheimild og studdist hann þar við fræðigrein sem Róbert Spanó prófessor skrifaði um það efni. Ragnari H. er einnig fullkunnugt um að í frávísunardómi sínum rakti meirihluti Hæstaréttar ítarlega þá annmarka á samkeppnislögum sem hann taldi vera á fyrirmælum þeirra um hlutverk Samkeppnisstofnunar annars vegar og Ríkislögreglustjórans hins vegar, við rannsóknir slíkra brota. Vegna ummæla Ragnars H. um að undirritaður hafi eytt 13-14 mánuðum samfleytt í undirbúning ákæru í olíumálinu, er rétt að taka fram að ákæruvaldið nýtur ekki þeirra forréttinda að fara bara með eitt mál í einu heldur er það fjöldi mála sem sinnt er á sama tíma.

Það er ekki ætlan mín að ræða Baugsmál enda málinu ekki lokið, en þar sem Ragnar H. tekur það með í upptalningunni er rétt að halda því til haga að 28. júní gekk dómur í héraðsdómi í þeim hluta málsins sem áður hafði verið vísað frá og sendur síðar aftur til héraðsdóms af Hæstarétti. Helmingi ákæruliða í þeirri ákæru var ranglega vísað frá, en síðar sýknað vegna þeirra eftir heimvísun málsins til héraðsdóms. Ástæðan var sú að dómurinn taldi 104. gr. hlutafélagalaga óskýra og þar með ófullnægjandi refsiheimild. Þetta þykir Ragnari H. eflaust ákæruvaldinu að kenna. Hver leggur okkur til þessi tæki jafn bitlaus og raun ber vitni? Er það ósk Ragnars H. að ákæruvaldið gefist bara upp og reyni ekki einu sinni að framfylgja skyldum sínum? Er einhver að gera athugasemdir við þá niðurstöðu dómsins að vísa máli frá vegna þess að hann telur refsiákvæði óskýr í stað þess að sýkna eins og átti að gera? Er það einnig klúður ákæruvaldsins að mál sakborninga endasendist með þessum hætti milli dómstóla með töfum og óvissu fyrir þá?

Ragnar H. minnist á innherjasvikamál sem hann var verjandi í og undirritaður sótti fyrir nokkrum árum. Sakborningur í því máli var sýknaður vegna þess að dómurinn taldi ásetning ekki sannaðan til brotsins og lögin ekki heimila með skýrum hætti að refsa sakborningi fyrir gáleysisbrot. Lögum um verðbréfaviðskipti var breytt í framhaldi af dómnum og kom skýrt fram í umfjöllun um þær breytingar að eldra ákvæði veitti ekki fullnægjandi refsivernd vegna þessara brota. Komst Alþingi að þeirri niðurstöðu að tiltaka bæri í lagatextanum að brot framin af gáleysi skyldu varða refsingu.

Er það þá einhver frétt fyrir Ragnar H. að bent sé á að löggjöf á sviði efnahagsbrota hafi verið áfátt og haft áhrif í niðurstöður dómstóla? Það hlýtur að vera hlutverk löggjafans að leggja ákæruvaldinu til löggjöf sem stenst kröfur dómstóla. Það er einnig óásættanlegt að starfskröftum lögreglu og ákæruvalds sé sóað í að framfylgja ófullkominni löggjöf.

Höfundur er saksóknari efnahagsbrota.