2 Júlí 2007 12:00

* Þar ber hæst að sérsveit lögreglunnar var á þessum tíma flutt frá lögreglunni í Reykjavík til Ríkislögreglustjórans og efld. Þessi aukning nemur 38 starfsmönnum á árunum 2000–2006.

*Frá árinu 2000 hefur starfsemi fjarskiptamiðstöðvar lögreglu verið flutt frá öðrum lögregluumdæmum en þar eru nú 19 starfsmenn.

*Þá var á árinu 2000 settur upp s.k. bílabanki lögreglu þar sem starfa 4 starfsmenn.

*Árið 2001 hóf Ísland þátttöku í s.k. Schengen-samstarfi sem kallaði á eftirlit okkar með ytri landamærum svæðisins og að hjá lögreglu yrði s.k. Sirene-skrifstofa sem er bundin ströngum skilyrðum Evrópusambandsins um vöktun og þjónustu. Við þetta þurfti að fjölga starfsmönnum alþjóðadeildar um 10.

*Á árinu 2003 voru Almannavarnir fluttar til embættisins ásamt 5 starfsmönnum.

Ragnar H. minnist ekki einu orði á þetta. Er honum ekki kunnugt að þessi verkefni voru flutt til Ríkislögreglustjórans? Þessi verkefni þarf að vinna og þau kosta peninga hvar sem þau eru unnin. Fjölgun starfsmanna vegna framangreindra verkefna nemur 76 af heildarfjölda starfsmanna sem var 120 í árslok 2006. Starfsmenn saksóknara efnahagsbrota fylla nú 16,5 stöðugildi eða 14% heildar starfsmannafjölda embættisins. Ég veit ekki hvaða skoðun Ragnar H. hefur á þessum tilflutningi verkefna, né skoðun hans á því hvort ríkisvaldið á að halda uppi þessari þjónustu. Það skiptir engu máli enda leggur hann ekki á sig að setja sig inn í málið heldur lætur líta svo út að öll þessi aukning fjárveitinga hafi runnið til málsmeðferðar efnahagsbrota og þeim ekki fylgt nein frekari verkefni. Reyndar er það svo að þær tæplega 700 milljónir sem fluttar hafa verið til embættis Ríkislögreglustjóra til að standa straum af kostnaði við aukin verkefni nema hærri fjárhæð en í heildina runnu til efnahagsbrotadeildar á þeim 6 árum sem Ragnar H. tiltekur.

Að lokum vil ég spyrja; vill Ragnar H. að lögregla nái árangri í að halda hvítflibbum til laga þegar þeir brjóta af sér og ef svo er hefur hann einhverjar uppbyggilegar tillögur um skipulag þeirra mála?

Höfundur er saksóknari efnahagsbrota.