24 Nóvember 2014 09:39
Á síðasta ári átti þriðjungur allra líkamsárása á höfuðborgarsvæðinu sér stað í miðborg Reykjavíkur. Þetta háa hlutfall er rakið til þess að miðborgin hefur þá sérstöðu að þangað sækja þúsundir manna í tengslum við skemmtanalífið um helgar. Gestirnir eru ekki alltaf til fyrirmyndar, eins og dæmin sanna, og það hefur auðvitað mikil áhrif á afbrotatölfræðina þegar miðborgin er annars vegar. Þegar litið er til tilkynntra ofbeldisbrota í miðborginni fyrstu tíu mánuði ársins er ekki að sjá að þeim fækki í samanburði við sama tímabil á síðasta ári.
Þetta vandamál er flestum ljóst, en ofbeldisbrotin voru einmitt sérstaklega til umræðu þegar lögreglan hitti lykilfólk í miðborginni að máli í gær. Líkt og á öðrum svæðafundum var farið yfir stöðu mála og þróun brota, og þar eru ofbeldisbrotin sannarlega áhyggjuefni. Vel var mætt á fundinn, en á honum m.a. var rætt um breyttan opnunartíma skemmtistaða og hvort það myndi bæta ástandið. Fundarmenn voru sammála um að sameiginlegt átak allra þyrfti til að fækka ofbeldisbrotum. Tölfræði frá fundinum má nálgast með því að smella hér.