9 Mars 2015 15:44

Lögreglan hafði í ýmsu að snúast í liðinni viku og þá mest í kringum umferðarmálin.  Helgin fór ágætlega fram en einn fékk að gista fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar á ölvunarakstri.  Skemmtanahaldið fór annars ágætlega fram og engin teljandi útköll á öldurhúsin.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og þá var einn ökumaður handtekinn vegna gruns um akstur undir áhrifum áfengis auk þess sem hann varð valdur að umferðaróhappi.

Það sem af er þessu ári hafa fjórir ökumenn verið stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna en einungis einn vegna gruns um ölvun við akstur.

Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinn viku og áttu þau sér öll stað á gatnamótum þar sem stöðvunarskylda er.  Tvö af þessum óhöppum voru á gatnamótum Heiðarvegar og Kirkjuvegar og eitt á gatnamótum Illugagötu og Kirkjuvegar.   Í einhverjum tilvikum var um minniháttar meiðsl að ræða en töluvert tjón varð á þeim ökutækjum sem þarna áttu hlut að máli.

Átta kærur liggja fyrir vegna brota á að virða stöðvunarskyldu,  sjö kærur liggja fyrir vegna ólöglegrar lagningar ökutækja, tveir ökumenn voru kærðir fyrir akstur án ökuréttinda og tveir fengu kærur fyrir að aka án þess að hafa öryggisbeltin spennt.   Alls eru þetta því 19 kærur vegna brota á umferðarlögum í liðinni viku.