4 Maí 2015 17:48

Lögreglan hafði í nógu að snúast í liðinni viku vegna ýmissa mála sem upp komu.  Nokkur erill var um helgina án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp.  Þurfti lögreglan í nokkrum tilvikum að hafa afskipti af ölvuðum einstaklingum sem ýmist gátu enga björg sér veitt eða voru til óþurftar.

Tveir þjófnaðir voru tilkynntir til lögreglu í liðinni viku en í öðru tilvikinu var um að ræða þjófnað á áfengi úr heimahúsi en í ljós kom að þarna höfðu ungmenni verið á ferð og náðust þau áður en þau byrjuðu að neita veiganna.  Í hinu tilvikinu var um að ræða þjófnað á lyfjum úr heimahúsi en ekki er vitað hver eða hverjir þar voru að verki.  Málin eru í rannsókn.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna í liðinni viku.  Þá liggur ein kæra fyrir vegna brota á stöðvunarskyldu og ein kæra vegna ólöglegrar lagningar ökutækis.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í vikunni sem leið og varð annað þeirra á gatnamótum Heiðarvegar og Kirkjuvegar en þarna hafði bifreið, sem ekið var norður Heiðarveg verið ekið inn á gatnamótin og í veg fyrir bifreið sem ekið var austur Kirkjuveg.  Engin slys urðu á fólki en bifreiðarnar eru báðar eitthvað skemmdar.   Í hinu tilvikinu var um að ræða árekstur á Hamarsvegi á gatnamótunum við Dalveg.  Þarna hafði bifreið sem ekið var úr Dalnum verið ekið á bifreið sem ekið var austur Hamarsveg.  Engin slys urðu á fólki en eitthvað tjón varð á bifreiðunum

Lögreglan vill minna á að tími nagladekkjanna hefur runnið sitt skeið þetta vorið og má vænta þess að farið verið að sekta þá ökumenn sem aka um á negldum hjólbörðum þegar nær dregur miðjum mánuðinum.  Eru þeir sem tök hafa hvattir til að skipta yfir á sumardekkin.