26 Maí 2015 15:40

Lögreglan hafði í töluverðu að snúast í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu án þess þó að um alvarleg mál hafi verið að ræða.  Skemmtanahald helgarinanr fór þokkalega fram en eitthvað var þó um pústra án þess þó að kærur liggja fyrir.  Þá var eitthvað um kvartanir vegna hávaða frá heimahúsum þar sem gleðskapur var í gangi.

Í byrjun liðinnar viku var lögreglu tilkynnt um skemmdir sem unnar voru í húsnæði sem verið var að endurnýja.  Þarna hafði fyrrverandi starfsmaður valdið tjóni á pípulögnum, skemmt veggi og ýmislegt fleira.  Ljóst er að tjónið er umtalsvert, en talið er að ástæða skemmdana tengist uppgjöri á vinnulaunum.

Eitt fíkniefnamál kom upp um helgina en þrjár ungar stúlkur játuðu að hafa ætlað að selja amfetamín hér í Eyjum.  Stúlkurnar voru handteknar þegar þær voru að ná í pakka sem sendur var til Vestmanneyja með Herjólfi. Málið telst að mestu upplýst.

Einn ökumaður var stöðvaður í liðinni viku vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku.  Fyrra óhappið átti sér stað á Hamarsvegi vestan við Dverghamar en þarna hafði maður á bifhjóli misst stjórn á akstrinum með þeim afleiðingum að hjólið lenti á hliðinni og rann það og ökumaðurinn um 60 metra eftir veginum.   Ökumaðurinn kvartaði yfir eymslum í öxl og ökkla og var fluttur á Sjúkrahúsið og í framhaldi af því með sjúkraflugi til Reykjavíkur til frekari rannsóknar.   Seinna óhappið átti sér stað á Sólhlíð þar sem bifreið var ekið afturábak á kyrrstæða bifreið.  Ekki var um mikið tjón að ræða í því óhappi.