8 Júní 2015 15:25

Nokkur erill var hjá lögreglu í vikunni og þá sérstaklega um helgina enda Sjómannadagshelgin haldin hátíðleg.  Nokkuð var um útköll í tengslum við skemmtanahaldið og þurftu nokkrir villuráfandi aðstoð lögreglu til að komast til síns heima sökum ölvunarástands.  Þá var eitthvað um stympingar, en einungis ein kæra liggur fyrir eftir vikuna.

Ein líkamsárás var kærð til lögreglu en um var að ræða átök á milli tveggja manna á einum af öldurhúsum bæjarins um liðna helgi.  Þurfti annar mannanna að leita til læknis vegna áverka sem hann fékk, sem þó voru ekki alvarlegir.

Í vikunni var tilkynnt um vinnuslys í Vinnslustöðinn en þarna hafði lyftara verið ekið yfir fót manns sem þarna var að störfum.  Ekki reyndist vera um alvarlega áverka að ræða.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu í vikunni en þarna var um að ræða árekstur tveggja bifreiða á bifreiðastæðinu við verslunina Tvistinn.  Ekki var um mikið tjón að ræða og engin slys á fólki.

Fjórar kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna.  Einn ökumaður var sektaður vegna hraðaksturs en hann mældist á 78 km/klst. á Kirkjuvegi, sami ökumaður var jafnframt sektaður þar sem hann virti ekki stöðvunarskyldu.  Þá var einn ökumaður sektaður fyrir notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar og einn var sektaður fyrir að flytja farþega á þann hátt að það olli farþeganum hættu.

Lögreglan vill minna á að frá miðvikudegi til laugardags verður TM-mótið haldið hér í Eyjum og eru ökumenn hvattir til að aka varlega og þá sérstaklega í kringum knattspyrnuvelli bæjarins enda fjölgar mikið gangandi vegfarendum.