23 Júní 2015 10:44

Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu.  Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum en eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að hafa afskipti af fólki sökum ölvunarástands þess.

Um hádegi á sunnudag var lögreglu tilkynnt að kveikt hafði verið í bréfarusli í stigagangi að Foldahrauni 41. Lítið sem ekkert tjón varð en hins vegar er atvikið litið alvarlegum augum enda getur illa farið þegar verið er að leika sér með eld.

Lögreglan hafði í tveimur tilvikum afskipti af ungmönnum sem voru með áfengi inni á skemmtistöðum hér í bæ.  Var í báðum tilvikum um að ræða stúlkur sem nýlega voru orðnar 16 ára og höfðu þær verið afgreiddar með bjór án þess að kannað væri með aldur þeirra.  Auk þess höfðu þær ekki aldur til að vera inni á þessum stöðum.

Fjórar kærur liggja fyrir vegna brota á umferðarlögum en um er að ræða ólöglega lagningu ökutækja, vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar og vanrækslu á vátryggingaskyldu.