27 Júlí 2015 15:38

Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp.  Nokkur erill var í kringum öldurhúsin og eitthvað um stympingar án þess þó að kærur liggi fyrir.  Skemmtanahaldið fór þó að mestu leiti friðsamlega fram.

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglu um liðna helgi en þarna höfðu tveir einstaklingar orðið ósáttir þar sem þeir voru í gleðskap í heimahúsi og tókust eitthvað á.  Þurfti lögreglan að skakka leikinn og voru þrír einstaklingar handtekinir og fengu að gista fangageymslu þar til ró færðist yfir mannskapinn.  Málið er í rannsókn.

Að morgni 22. júlí sl. var lögreglu tilkynnt um að árekstur hafi orði milli skipa í Friðarhöfn.  Þarna hafði orðið bilun í stjórnbúnaði Jóns Vídalín VE með þeim afleiðingum að skipið lenti á Kap VE sem skemmdist þó nokkuð við áreksturinn.  Engin slys urðu á fólki í óhappinu.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt í vikunni en um var að ræða minniháttar óhapp og engin slys á fólki.

Alls liggja fyrir 9 kærur vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna þar sem m.a. er um að ræða meinta ölvun við akstur, ólöglega lagningu ökutækis, vanræksla á að hafa öryggisbelti spennt í akstri og notkun farsíma í akstri án handfrjáls búnaðar.

Þar sem Þjóðhátíð er um næstu helgi vill lögreglan minna foreldra og forráðamenn á að útivistareglurnar gilda jafnt á Þjóðhátíð sem og aðra daga.