9 Nóvember 2015 18:37

Lögreglan hafði í nógu að snúast í vikunni og sérstaklega um liðna helgi vegna hinna ýmsu mála sem upp komu.   Nokkur ölvun var aðfaranótt sunnudags og töluvert um útköll á öldurhús bæjarins.

Þrír gistu fangageymslu lögreglu um helgina og var í einu tilviku um að ræða mann sem var til vandræða fyrir utan veitingstaðinn Lundann og var hann vistaður í fangageymslu þar til bráði af honum. Hinir tveir voru færðir í fangageymslu vegna rannsóknar á sakamáli og fengu að fara frjálsir ferða sinn að skýrslutökum loknum

Ein líkamsárás var kærð til lögreglu eftir skemmtanahald helgarinnar og er málið í rannsókn en málsatvik eru óljós. Ekki var um alvarlega áverka að ræða.

Ein eignaspjöll voru tilkynnt lögreglu en þarna hafði grjóti verið kastað í framrúðu bifreiðar sem stóð við Hásteinsveg 41 með þeim afleiðingum að rúðan brotnaði. Er talið að eignapsjöllin hafi verið framin aðfaranótt sl. laugardags.  Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um geranda beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Í vikunni var lögreglu tilkynnt um vinnuslys um broð í Maggý VE en þarna hafði maður sem var að fara niður í lest fallið niður um 2 metra þegar stigi sem hann notaði við að komast niður í lestina losnaði. Í fallinu lenti maðurinn á kari og fékk jafnframt stigann í andlitið.  Ekki er vitað hversu alvarlega áverka maðurinn fékk en hann kvartaði yfir eymslum í hálsi, höfuðverk, auk þess sem blæddi úr honum.  Maðurinn var fluttur á Heilbrigðisstofnun Suðurlands í Vestmannaeyjum með sjúkrabifreið.

Einn ökumaður var stöðvaður vegna gruns um ölvun við akstur um liðna helgi og þá var einn stöðvaður fyrir hraðakstur en hann mældist á 103 km/klst. þar sem hann ók eftir Heiðarvegi aðfaranótt sl. sunnudags. Þá fékk einn ökumaður sekt fyrir að virða ekki stöðvunarskyldu.