16 Nóvember 2015 09:40

Lögreglan hafði í nógu að snúast í vikunni vegna hinna ýmsu verkefna sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór þokkalega fram en eitthvað var um útköll á öldurhúsin vegna hinna ýmsu mála sem upp komu.

Ein líkamsárás var tilkynnt til lögreglu um helgina en þarna var um að ræða árás á dyravörð Lundans, árásarmaðurinn var handtekinn og fékk gistingu í fangageymslu. Dyravörðurinn fékk ekki alvarlega áverka eftir árásina.   Er lögreglan var að vinna í því máli þá veittist einn af gestum staðarins á lögreglu og var viðkomandi handtekinn og færður í fangageymslu.   Báðum þessum mönnum var sleppt lausum eftir að víman rann af þeim og skýrsla hafði verið tekin af þeim.

Tveir þjófnaðir voru tilkynntir lögreglu í vikunni en í öðru tilvikinu var um að ræða þjófnað úr bifreið, þarna hafði verið stolið íþróttatösku og fannst hún skömmu síðar og reyndist allt vera í henni sem átti þar að vera. Í hinu tilvikinu var um þjófnað á reiðhjóli að ræða sem stóð við veitingastaðinn Lundann að kvöldi sl. föstudags.

Sl. sunnudag var tilkynnt um skemmdir á bifreið sem stóð við Strandveg 43a, en þarna hafði verið búið að brjóta afturrúðu bifreiðarinnar, framljós vinstra megin og dælda bifreiðina víða. Talið er að skemmdarverkið hafi verið framið aðfaranótt 15. nóvember sl. Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um atvikið eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 2090.

Lögreglan hafði afskipti af manni um helgina vegna gruns um fíkniefnamisferlis en við leit fundust nokkrar töflur af sterum. Má hann búast við sektum vegna málsins auk þess gæti orðið efrirmál þar sem hann var á reynslulausn.