8 Desember 2015 11:32

Vikan var með rólegra móti hjá lögreglu en þó var eitthvað um það að aðstoða þurfti fólk vegna ófærðar í bænum.  Helgin gekk með ágætum og lítið um útköll vegna skemmtanahalds.

Einn ökumaður var stöðvaður í vikunni vegna gruns um að hann væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna við aksturinn.

Töluverður erill var hjá lögreglu í byrjun þessarar viku vegna ofsaveðurs sem gekk yfir landið.  Sett var óvissustig vegna slæmrar verðurspá. Um kvöldmatarleitið í gær var komið ofsaveður af austri og tilkynningar byrjaðar að koma til lögreglunnar um foktjón. Um kl.20:00 óskaði lögreglustjóri Vestmannaeyja eftir við Ríkislögreglustjóra að sett yrði hættustig fyrir Vestmannaeyjar.  Alls bárust lögreglu 26 tilkynningar um tjón vegna óveðursins frá kl. 14:00 til miðnættis. Nokkurt tjón var í þessu óveðri og það mesta á húseign við Smáragötu en þar fauk hluti þaks af húsinu. Önnur útköll voru vegna þakplatna sem voru að losna, rúðubrots ofl.  Þá aðstoðaði lögregla starfsfólk stofnana og fyrirtækja við að komast bæði til vinnu og til síns heima.  Um kl.01:00 í nótt þegar veðrið var farið að ganga niður var hættuástandi aflýst og óvissustig aftur sett á. Um 30 félagar í Björgunarfélagi Vestmannaeyja stóðu svo sannarlega í ströngu í þessu óveðri við að sinna útköllum og til að aðstoða íbúa Vestmannaeyja í þessum hamförum. Vill lögreglan þakka þeim veitta aðstoð.