21 Desember 2015 16:09

Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í liðinni viku vegna hinna ýmsu mála sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór þokkalega fram en eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að aðstoða fólk vegna ölvunarástands þess.

Tvö fíkniefnamál komu upp í vikunni en sl. föstudag við komu Herjólfs til Vestmannaeyja stöðvaði lögreglan bifreið sem var með skipinu og við leit á tveimur mönnum sem voru í bifreiðinni fundust fíkniefni á þeim báðum. Á öðrum þeirra fannst smáræði af kannabisefnum en á hinum um 15 gr. af kókaíni.  Auk þess er ökumaður bifreiðarinnar vera grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna og áfengis.

Einn þjófnaður var tilkynntur til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða þjónfað á svörtu og gráu rafmagnsreiðhjóli sem tekið var á móts við Strandveg 37 að talið er síðdegis þann 15. desember sl.

Ein eignaspjöll voru tilkynnt lögreglu í vikunni og áttu þau sér stað á gatnamótum Bessastígs og Heiðarvegar laust eftir miðnætti þann 19. desember sl. Þarna hafði ökumaður bifreiðarinnar stöðvað á rauðu ljósi þegar maður hafi komið að bifreiðinni og beðið um eld.  Þegar ökumaðurinn sagðist ekki vera með eldfæri hafi maðurinn sparkað í vinstri afturhurð bifreiðarinnar með þeim afleiðingum að hurðin dældaðist.  Lýsti ökumaðurinn manninum sem frekar stórum, grönnum og með ljóst skegg.  Hafi hann verið klæddur í bláar gallabuxur, svarta hettupeysu og með gráa húfu.   Eru þeir sem telja sig þekkja manninn vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu í síma 444 2090 eða í gegnum facebooksíðu lögreglunnar.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í báðum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.

Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Vestmannaeyjingum sem og landsmönnum öllum gleðilegra jóla.