28 Desember 2015 15:41

Það var í ýmsu að snúast hjá lögreglu í liðinni viku án þess þó að alvarleg mál hafi komið upp. Jólahátíðin gekk ágætlega fyrir sig fyrir utan tvö útköll á jólanótt sem reyndar tókst að leysa án frekari eftirmála.  Skemmtanahald helgarinnar gekk áfallalaust en eitthvað var þó um að lögreglan þurfti að aðstoða borgarana vegna hinna ýmsu mála sem upp komu.

Að morgni 23. desember sl. var lögreglu tilkynnt um innbrot í Vöruhúsið, en þarna hafði verið farið inn með því að spenna upp glugga á suðurhlið. Ekki var um miklar skemmdir að ræða en einhverju af áfengi var stolið.   Við skoðun á eftirlitsmyndavélum staðarins bárust böndin að ákveðnum aðila og var hann í framhaldi af því handtekinn.  Viðurkendi hann við skýrslutökur að hafa farið þarna inn og stolið áfenginu.  Viðkomandi var frjáls ferða sinna að loknum skýrslutökum.   Málið telst að mestu upplýst.

Tvö eignaspjöll voru tilkynnt í vikunni og áttu þau bæði sér stað aðfaranótt jóladags. Í öðru tilvikinu hafði maður sem var gestkomandi í húsi brotið rúðu eftir að húsráðandi hafði vísað honum út af heimilinu sökum ölvunar.   Í hinu tilvikinu hafði komið upp ósætti á milli félaga sem endaði með að annar félagann braut rúðu hjá hinum.  Sættir náðust hins vegar á milli félaganna og urðu ekki frekari eftirmál af rúðubrotinu.

Lögreglan í Vestmannaeyjum óskar Eyjamönnum sem og landsmönnum öllum gleðilegs nýs árs.