5 Janúar 2016 10:54

Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í kringum áramótin og þurfti að aðstoða nokkra sökum ölvunarástand þeirra. Skemmtanahald áramóta gekk ágætlega fyrir sig og engin alvarleg mál sem upp komu.

Að morgni 2. janúar sl. var lögreglu tilkynnt að maður hefði fallið á milli skips og bryggju í Friðarhöfn og að tekist hafi að ná honum upp.   Maðurinn, sem reyndist vera undir áhrifum áfengis, var blautur og kaldur og var komið til aðhlynningar á Heilsugæslunni.  Honum mun ekki hafa orðið meint af volkinu.

Í liðinni viku var lögreglu tilkynnt um þjófnað úr verluninni Geisla en þjófnaðurinn átti sér stað þann 15. desember sl. Stolið var þráðlausum Sony hátalara að verðmæti um 20.000,-. Á eftirlitsmyndavélum verslunarinnar sást hverjir þarna voru að verki en um var að ræða tvo unga drengi.   Haft var uppi á drengjunum og skiluðu þeir þýfinu.  Málið verður sent barnaverndaryfirvöldum.

Að morgni 2. janúar sl. var lögreglu tilkynnt um rúðubrot í húsi við Strandveg en þarna hafði grjóti verð hent í gegnum rúðu. Ekki er vitað hver þarna var að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Ein sekt vegna brota á umferðarlögum liggur fyrir eftir vikuna en um var að ræða kæru vegna vanrækslu á að færa ökutæki til aðalskoðunar auk þess sem ljósabúnaði ökutækisins var ábótavant.