3 Febrúar 2016 11:36

Liðin vika var að mestu róleg hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram en eitthvað var þó um að lögregla þurfti að aðstoða fólk sem var í samfloti með Bakkusi.

Tilkynnt var um þjófnað úr bifreið í liðinn viku en þarna hafði öskubakki sem var fullur af klinki verið stolið úr bifreiðinni þar sem bifreiðin stóð við Illugagötu 43. Talið er að þjófnaðurinn hafi átt sér stað frá 17. til 20. janúar sl. Ekki er vitað hver þarna var að verki en þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um það eru vinsamlegast beðnir um að hafa samband við lögreglu.

Í byrjun vikunnar var tilkynnt um nytjastuld á léttu bifhjóli sem var í húsi við Flatir. Hjólið fannst skömmu síðar við Vinnslustöðina og var það óskemmt.  Grunur beindist fljótlega að ákveðnum aðila og viðurkenndi hann nytjastuldinn og telst málið því upplýst.

Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í vikunni sem leið og má rekja þau að mestu leiti til þeirrar leiðinlegu færðar sem er búin að vera á götum bæjarins að undanförnu. Engin slys voru á fólki í þessum óhöppum.

Tvær kærur vegna brota á umferðarlögum liggja fyrir eftir vikuna en um er að ræða ólöglega lagningu ökutækis og notkun farsíma í akstir án handfrjáls búnaðar.