22 Febrúar 2016 15:19

Vikan var frekar róleg hjá lögreglu og engin alvarleg mál sem upp komu fyrir utan bruna að Foldahrauni 42. Skemmtanahald helgarinnar fór ágætlega fram og fá útköll á veitingastaði bæjarins.  Lögreglan fékk þó upplýsingar um slagsmál á Kirkjuvegi aðfaranótt sl. laugardags en engar kærur hafa borist vegna þessa.

Að morgni 21. febrúar var lögreglu tilkynnt um að reykur bærist frá íbúð að Foldahrauni 42 og að slökkviliðið væri á leið á vettvang.   Þegar lögregla kom á staðinn voru húsráðendur komnir út úr íbúðinni, en þau höfðu vaknað þarna um morguninn og var þá íbúðin full af reyk.  Miklar brunaskemmdir voru í íbúðinni og ljóst að nánast allt innbú er ónítt sem og innréttingar.  Eldsupptök eru út frá rafmagnstæki í eldhúsi.

Þrjú umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en í öllum tilvikum var um minniháttar óhöpp að ræða og engin slys á fólki.

Þrjár kærur ligga fyrir vegna brota á umferðarlögum en í tveimur tilvikum var um að ræða ólöglega lagningu ökutækis og í einu tilviki hafði aðili sem ollið hafði umferðaróhappi stungið af án þess að tilkynna um óhappið. Óhappið átti sér stað fyrir utan Týsheimilið þann 18. febrúar sl. á milli kl. 12:00 og 13:00.  Þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um óhappið eru vinsamlegast beðnir um að snúa sér til lögreglu.