14 Júní 2016 16:15

Lögreglan hafði í ýmis horn að líta í vikunni enda fjöldi fólks í bænum í tegnslum við TM-mótið. Helgin fór fram með ágætum en lítið um útköll á skemmtistaðina en þó var eitthvað um að lögreglan þurfti að hafa afskipti af fólki vegna ölvunarástands þess.

Ein eignaspjöll voru tilkynnt til lögreglu í liðinni viku en um var að ræða tjón á bifreið sem stóð fyrir utan Kirkjuveg 26. Er talið að menn sem þarna voru í átökum hafi lent utan í bifreiðinni með þeim afleiðingum að beygla kom á hægri framhurð hennar.

Þá var tilkynnt um að spreyjað hafi verið á súlur og borð í Herjólfsbæ. Ekki er vitað hver eða hverjir þarna voru að verki og eru þeir sem einhverjar upplýsingar hafa um gerendur hafi samband við lögreglu.

Eitt fíkniefnamál kom upp í vikunni en athugull vegfarandi fann poka með amfetamíni í og kom efnunum til lögreglu.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt lögreglu en um var að ræða óhapp sem varð á Básaskersbryggju þar sem bifreið var ekið á landgang við Herjólf. Nokkuð tjón varð á bifreiðinni en minniháttar tjón á landgögnubrúnni.

Alls liggur fyrir 21 kæra vegna brota á umferðarlögum eftir vikuna og er í flestum tilvikum um að ræða ólöglega lagningu ökutækja eða í 18 tilvikum. Í tveimur tilvikum var sektað vegna notkunar á farsíma án handfrjáls búnaðar í akstri, í einu tilviki vanrækslu á að hafa öryggisbelti spennti við akstur og í einu tilviki var tilkynnt um árekstur þar sem sá sem óhappinu olli lét ekki vita af því.