2 Mars 2015 15:43

Eins og vikan á undan þá var frekar rólegt hjá lögreglu í vikunni, þó var einhver erill í byrjun vikunnar sökum þess veðurs sem þá gekk yfir Eyjarnar.  Skemmtanahald helgarinnar fór fram með ágætum og engin teljandi útköll á öldurhús bæjarins.

Tvö eignaspjöll voru kærð til lögreglu í liðinni viku og áttu þau sér bæði stað á veitingastaðnum Lundanum.  Í fyrra tilvikinu var um rúðubrot að ræða og náðist sá sem braut rúðuna og viðurkenndi hann verknaðinn.  Í seinna tilvikinu var um að ræða skemmdir á inni á salerni þar sem m.a. ljós var brotið og hilla rifin niður.  Vitað er hver þarna var að verki og eru bæði málin í rannsókn.

Af umferðarmálum er það að frétt að einn ökumður var stöðvaður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna.  Þá var einn ökumaður stöðvaður þar sem hann hafði ekki ökuréttindi á það ökutæki sem hann ók.  Einn ökumaður var sektaður þar sem hann var ekki með öryggisbeltið spennt í akstri og þá liggur fyrir ein sekt vegna vöntunar á skráningarnúmeri.

Tvö umferðaróhöpp voru tilkynnt lögreglu í liðinni viku og var í öðru tilvikinu um að ræða snjóruðningstæki sem fór utan í bifreið en í hinu tilvikinu var um að ræða árekstur tveggja bifreiða á gatnamótum Heiðarvegar og Vestmannabrautar.  Engin slys urðu á fólki og minniháttar tjón á bifreiðum.