17 Maí 2016 16:21

Mikil umferð var um Vesturland um hvítasunnuhelgina.  Segja má að umferðin hafi gengið að mestu leyti vel fyrir sig og fór almennur aksturshraði á hringveginum niður í 70 til 80 km á klst er umferðin var sem þéttust.  Inn á milli óku þó sumir of hratt og tók lögreglan um 100 ökumenn fyrir of hraðan akstur í sl. viku og flesta af þeim um helgina.  Nokkrar tafir urðu vegna seinvirkra umferðarljósa á Borgarfjarðarbrú, þar sem stendur yfir viðgerð á brúargólfi og einnig urðu lítils háttar tafir vegna umferðaróhappa undir Hafnarfjalli og víðar í umdæminu.

Alls urðu átta umferðaróhöpp í umdæminu í sl. viku og þar af tvö þar sem meiðsl urðu á fólki.  Íslenskur ökumaður sem ók Vesturlandsveg til norðurs undir Hafnarfjalli, missti bílinn sinn yfir á öfugan vegarhelming er hann var að reyna að handsama kött sem slapp úr búri sem var í bílnum.  Lenti bíll hans fyrst utan í bíl sem að koma út gagnstæðri átt og síðan framan á bílnum sem kom þar á eftir en í þeim bíl voru sjö erlendir ferðamenn. Ökumaðurinn slasaðist við áreksturinn og var fluttur á heilsugæslustöðina í Borgarnesi en fólkið í hinum bílunum slapp með skrekkinn.  Í ljós kom að kötturinn hafði sloppið lifandi frá þessu þegar hann var loks handsamaður út í móa og á hann á þá trúlega sex líf eftir, ef marka má goðsögnina.

Fimm franskir ferðamenn óku bílaleigubíl sínum vestur Snæfellsnesveg um helgina.  Ætluðu þeir síðan að fara Heydalinn en ökumaðurinn sá vegamótin of seint en beygði samt þrátt fyrir að vera á of miklum hraða miðað við að geta beygt skammlaust.   Endaði bíllinn ofaní skurði og úr varð mikið högg er bíllinn lenti á skurðbakkanum.  Farþegi í aftursæti hlaut alvarlegan höfuðáverka og var hann fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi, aðrir sem í bílnum voru sluppu með minniháttar áverka.

Þá sofnaði erlendur ferðamaður undir stýri á Snæfellsnesvegi á annan í hvítasunnu og hossaðist bíllinn út í móa en án þess að velta. Líknarbelgirnir sprungu út og björguðu ökumanninum ásamt öryggisbeltinu sem hann var með spennt.