30 Nóvember 2016 08:58

Alls urðu fimm umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl. viku. Ökumaður fólksbíls missti bíl sinn útaf veginum í hálku á Bröttubrekku sl. laugardag og valt bíllinn síðan heilan hring og hafnaði á hjólunum. Tvennt var í bílnum og voru bæði í öryggisbeltum. Slapp fólkið með minniháttar skrámur. Þá varð árekstur tveggja bíla á Vatnaleið þegar bíl var snúið við um leið og annar hugðist taka framúr honum. Ekki urðu nein teljandi meiðsl á fólki en bílarnir voru óökufærir og voru fluttir með kranbíl af vettvangi. Erlendir ferðamenn misstu bílaleigubíl sinn útaf í hálku á Borgarfjarðarbraut en fólkið sakaði ekki og gat það haldið för sinni áfram eftir að bíllinn hefði verið dreginn aftur upp á veg. Bíll fór útaf og valt á Hálasveitarvegi í ísingu og hálku. Fernt var í bílnum og sakaði engan alvarlega enda voru allir í öryggisbeltum. Fólkið fór á heilsugæslustöðina í Borgarnesi til skoðunar og aðhlynningar. Dráttarbíll var sendur eftir bílnum sem að var óökufær.

Vörubílstjóri sem var að fjarlægja bíl á Holtavörðuheiði, sem hafði farið þar útaf og verið var að ná aftur upp á veginn, kvartaði sáran yfir óaðgæslu og hraðakstri ökumanna. Sagði maðurinn að hann hefði verið með öll tilheyrandi blikkljós og aðvörunarljós í gangi en margir ökumenn hefðu ekkert slegið af þegar þeir óku framhjá og hann taldi sig hafa verið þarna í mikilli hættu. Mikilvægt er að ökumenn taki tillit til viðvörunarljósa og sýni aðgát þegar einhver er stopp út í vegkanti, þá sakar ekki að bjóða fram aðstoð ef einhver er í vandræðum.