23 Febrúar 2016 15:15
Sjö umferðaróhöpp urðu í umdæmi Lögreglunnar á Vesturlandi í sl. viku, þar af eitt dauðaslys er bíll fór í Ólafsvíkurhöfn.
Nokkurn óveðurshvell gerði um sl helgi með tilheyrandi snjókomu, skafrenningi og hríðarbyl. Tveir bílar, fólksbíll og jeppi, fóru útaf á Holtavörðuheiðinni og var heiðinni lokað í framhaldinu og var hún lokuð í um tæpa tvo sólarhringa en umferð var vísað á veginn um Laxárdalsheiði og Bröttubrekku en sú leið hélst opin fyrir vel búna bíla.
Fastir ferðamenn. Ekkert lát er á aðstoðarbeiðnum erlendra ferðamanna sem eru að festa sig í snjó víðs vegar í umdæminu. Vinsælustu festustaðirnir þessa vikuna voru Hítardalur, Öndverðanesvegur, Langavatnsvegur, Norðurárdalur, Garpadalsvegur við Gilsfjörð, Vatnaleið, Skógarstrandarvegur, Snæfellsnesvegur við Vegamót og Útnesvegur. Lögreglan ræsti út björgunarsveit í einu tilvikinu þar sem ökumaður var talinn vera í hættu en í hinum tilvikunum voru allir í góðu lagi og var viðkomandi því komið í samband við þjónustuaðila sem að taka að sér að draga upp bíla og aðstoða ökumenn í vandræðum.
Einn ökumaður var tekinn fyrir meintan akstur undir áhrifum fíkniefna. Tilkynnt var um tvo ökumenn sem taldir voru ölvaðir en við athugun kom í ljós að þeir voru báðir í lagi.