12 Janúar 2016 14:21

Alls urðu sex umferðaróhöpp í umdæmi LVL í sl viku, þar af eitt þar sem ökumaður flutningabíls slasaðist alvarlega þegar bíll hans fauk útaf Vestfjarðavegi við Fellsenda í Dölum sl. miðvikudag.

Ekið var á gangandi vegfaranda á Snæfellsnesvegi, milli Grundarfjarðar og Ólafsvíkur síðdegis sl. fimmtudag.   Farið var með viðkomandi á heilsugæslustöð til læknisskoðunar en aðeins var um minniháttar skrámur að ræða sem þykir mjög vel sloppið miðað við aðstæður.  Var viðkomandi ferðamaður að leita að gsm símanum sínum sem hann hafði tapað í vegkantinum við myndatökur þar nokkru áður, þegar slysið varð.

Ökumaður fólksbíls missti stjórn á bifreið sinni í hálku á Borgarfjarðarbraut við Fossatún sl. mánudag og rann bíllinn stjórnlaust áfram og hafnaði á dráttarvél sem kom úr gagnstæðri átt.  Höggið var það mikið að vinstra framhjólið brotnaði undan dráttarvélinni.  Ekki urðu meiðsl á fólki í þessum árekstri.

Lögreglan á Vesturlandi hefur klippt skráningarnúmer af yfir 20 ökutækjum frá áramótum, vegna vangoldinna tryggingariðgjalda og vanrækslu á að færa ökutæki til skoðunar.

Bóndi á Mýrunum kvartaði yfir því að flugmaður hefði lent flugvél í fjörunni hjá honum án leyfis og fælt hross og annan búpening.  Talið er líklegt að um svokallað fis hafi verið að ræða frekar en „fullvaxna“ flugvél.  Ekki er eins mikið regluverk í kringum starfrækslu slíkra véla og stærri flugvéla og því erfiðara að rekja ferðir þeirra um loftin blá.

Erlendir ferðamenn voru aðstoðaðir í sl. viku þar sem þeir höfðu fest bifreið sína í snjó á Grjóthálsi, sem liggur á milli Norðurárdals og Þverárhlíðar í Borgarfirði.  Einnig voru útlendingar aðstoðaðir sem höfðu fest sig á Laxárdalsheiði í Dölum.

Tveir ökumenn voru teknir fyrir akstur undir áhrifum fíkniefna.