1 Júní 2015 14:44

26 ökumenn voru stöðvaðir fyrir of hraðan akstur í umdæmi lögreglustjórans á Vestfjörðum í liðinni viku.  Sá sem hraðast ók var mældur á 128 km/klst, þar sem leyfilegur hámarkshraði er 90 km/klst.

Eitt umferðaróhapp var tilkynnt til lögreglu.  Bifreið hafnaði út fyrir veg á Örlygshafnarvegi skammt frá bænum Hvallátrum.  Ökumaður var fluttur á heilsugæslustöðina á Patreksfirði til skoðunar og bifreiðin óökuhæf, flutt af vettvangi með krana.

Einn ökumaður var kærður vegna gruns um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna,  þá var annar ökumaður kærður vegna gruns um ölvun við akstur.

Laugardaginn 27. maí  var ökumaður aðstoðaður af björgunarsveit þar sem bifreið hans var föst í snjó á Hrafnseyrarheiði og annar erlendur ferðamaður aðstoðaður á Dynjandisheiði þar sem hann hafði fest bíl sinn í snjó, þá var björgunarsveit kölluð út daginn eftir vegna erlends ferðamanns á Klettshálsi, vegfarendur sem leið áttu um gátu aðstoðað viðkomandi, var því aðstoðar björgunarsveitar afturkölluð.

Víða var skemmtanahald í umdæminu um liðna helgi og fór það fram án teljandi afskipta lögreglu.