27 Júní 2016 10:57

Umferðardeild lögreglunnar á Suðurlandi hafði afskipti af ökumanni hópferðabifreiðar skömmu fyrir hádegi á fimmtudag þar sem hann var á leið austur Suðurlandsveg við Lögberg. Í samræðum við ökumanninn fundu lögreglumenn áfengisþef leggja frá vitum hans.  Við forskoðun mældist áfengi í blóði hans meira en góðu hófi gengdi.  Ökumaðurinn var sviptur ökuréttindum til bráðabirgða á staðnum.  Í bifreiðinni voru 18 farþegar.

Karlmaður var handtekinn á Kirkjubæjarklaustri í síðustu viku vegna líkamsárásar og heimilisofbeldis. Hann var fluttur í fangageymslu þar sem hann dvaldi á meðan frumrannsókn málsins fór fram.  Maðurinn var að henni lokinni brottvísað af heimili og úrskurðaður í nálgunarbann.

Um helgina var farið inn í bifreið á bílastæði á Höfn og bakpoka stolið úr henni. Í pokanum voru ýmsir munir spænsks ferðamanns.  Bakpokinn fannst skömmu síðar með öllu því sem í honum hafði verið.  Ekki er vitað hver þjófurinn var.

Tveir karlmenn voru handteknir á tjaldsvæðinu á Höfn um helgina grunaðir um að hafa í vörslum sínum fíkniefni. Við leit í tjaldi þeirra fundust rúm 20 grömm af kannabis.  Þeir viðurkenndu að eiga efnin.  Mennirnir voru látnir lausir eftir skýrslutöku.

Rannsóknarsamvinna lögreglu á Suðurlandi og fangavarða á Litla Hrauni kom í veg fyrir að miklu magni meintra fíkniefna og lyfa væri smyglað inn á Litla Hraun á föstudag. Á Selfossi voru tveir karlmenn staðnir að því aðfaranótt föstudags að koma pakka fyrir í bifreið sem þeir vissu að ætti að fara inn á fangelsissvæðið um daginn.  Pakkinn var haldlagður og innihaldið sent í efnagreiningu á rannsóknarstofu.  Á þessari stundu er ekki vitað hvaða efni er um að ræða.

Kona var handtekin á Litla hrauni á föstudag.  Hún var komin til að heimsækja fanga.  Grunsemdir vöknuðu um hún væri með ólögleg efni sem hún hygðist smygla inn í fangelsið.  Við nánari rannsókn kom í ljós að hún var með töflur innvortis.  Það er ekki vitað hvaða töflur það voru en úr því verður skorið á rannsóknarstofu.  Málin tvö eru ótengd.

Fólksflutningabifreið með 13 manns valt á hliðina við Langasjó um miðjan dag í gær. Tveir farþeganna slösuðust minni háttar.  Björgunarsveitarmenn fóru á staðinn ásamt lögreglu og fluttu fólkið á Kirkjubæjarklaustur þar fjöldahjálparstöð var opnuð og hlúð var að fólkinu.  Leiðin að Langasjó er lokuð og þar eiga ökutæki ekki að vera á ferð á þessum tíma.  Málið er í rannsókn hjá lögreglu.