22 September 2017 15:55

Í málaskrá lögreglunnar á Austurlandi eru skráð 128 mál. Af þessum 128 málum eru 30 umferðarlagabrot og þarf af 28 hraðakstursbrot. Þar eiga erlendir ferðamenn drjúgan hlut sem oft áður. Tveir ökumenn voru stöðvaðir undir áhrifum ávana-og fíkniefna auk þess sem annar þeirra var sviptur ökuréttindum, þeir munu eiga yfir höfði sér sektir og mögulega sviptingu ökuréttar.

Eitt fíkniefnamál kom upp en þar var einstaklingur handtekinn með nokkurt magn kókaíns undir höndum.

Ein tilkynning kom til lögreglu að ekið hefði verið á lamb en nú hyllir undir það að smalað verði og þessum tilkynningum fari að fækka.

Í umdæminu urðu fjögur umferðaóhöpp á tímabilinu. Ölvaður ökumaður var einn þeirra sem átti hlut að umferðaróhappi. Hann hafði ekið útaf og sá má búast við hæfilegri refsingu vegna þess. Húsbíll fauk útaf í Berufirði og stórskemmdist í veltunni. Þar voru á ferðinni erlendir ferðamenn sem ekki höfðu gert sér grein fyrir íslenskri veðráttu.

Þann 16. var svo tilkynnt um skemmdarverk á kirkjunni í Loðmundarfirði. Þar hafði kirkjuhurðin verið brotin upp og farið inn í kirkjuna. Engar skemmdir höfðu verið unnar innandyra. Lögregla vill biðla til allra þeirra sem mögulega hafa upplýsingar um þessi skemmdarverk að hafa samband við lögreglu.