11 Júlí 2018 18:46

Það er óhætt að segja að veðrið hafi lokkað til sín ferðamenn til Austurlands og eru tjaldsvæði um allt Austurland þétt setin. Umferð hefur aukist mikið í umdæminu og þá sérstaklega ökumönnum með ferðavagna. Almennt hafa ökumenn ekið gætilega og farið að lögum. Þó hafa á annað hundrað ökumenn verið sektaðir fyrir hraðakstur, sá sem hraðast ók var á 140 km/klst þar sem hámarkshraði er 90 km/klst. Þá var ökumaður stöðvaður eftir að hafa verið mældur á 126 km/klst þar sem hámarkshraði er 70 km/klst í Fáskrúðsfjarðargöngum. Sá ökumaður má búast við sekt uppá 130 þúsund krónur auk þess að missa ökuréttindin í einn mánuð.

Þann 10. júlí var tilkynnt um reyk sem bærist af Héraðsflóa, kom í ljós að þar var brennandi bátur. Mannbjörg varð en skipverji kom sér í björgunarbát þar sem þyrla Landhelgisgæslu hífði hann um borð og flutti til lands. Skömmu síðar sökk báturinn. Ekki er kunnugt um eldsupptök en málið er í rannsókn hjá lögreglu.

Nokkuð hefur borið á því að eigendur bifreiða hafi ekki fært þær til skoðunar fyrir tilsettan tíma og hafa allnokkrir bifreiðaeigendur komið að bifreiðum sínum númerslausum vegna þess. Mikilvægt er að eigendur sinni þessari skyldu sinni og hafi bifreiðar sínar í lögmæltu ástandi öryggisins vegna.

Núna fer í hönd Rokkhátíðin Eistnaflug í Neskaupstað og er búist við miklum fjölda tónlistaráhugamanna vegna þess.Veðurspá er einstaklega góð og búast má við því að mikið verði um að vera í kringum hátíðina. Lögregla mun halda uppi öflugri löggæslu á meðan hátiðinni stendur og má búast við að ökumenn verði stöðvaðir við umferðareftirlit vegna þessa.