17 Júlí 2018 23:12

Eistnaflugshátíðin var haldin dagana 11. – 14. júlí í Neskaupstað og fór vel fram að mestu leyti. Nokkuð færri gestir sóttu hátíðina að þessu sinni en undanfarin ár. Fimm fíkniefnamál komu til kasta lögreglu og eru öll minniháttar. Lögreglan naut aðstoðar lögreglumanns með fíkniefnaleitarhund, sem skiptir sköpum við aðstæður sem þessar.

Ein líkamsárás hefur verið kærð til lögreglu. Þá er grunur um að tveimur konum hafi verið byrlað ólyfjan en báðar fóru þær á sjúkrahúsið í Neskaupstað, þar sem önnur þeirra var lögð inn. Konurnar báru fyrir sig minnis og máttleysi, og önnur þeirra var með blóðsprungin augu og lágan blóðþrýsting.

Lögreglan hélt uppi öflugri löggæslu á svæðinu og m.a. fengu margir ökumenn að blása í áfengismæli þegar komið var að heimför á sunnudegi.

38 ökumenn voru kærðir fyrir of hraðan akstur í umdæminu og sá sem hraðast ók var á 130 km/klst þar sem er 90 km/klst hámarkshraði. Þá voru nokkrir ökumenn kærðir fyrir að tala í síma við akstur án handfrjáls búnaðar.  Einn ökumaður var kærur fyrir meinta ölvun við akstur.

LungA – Listahátíð fer fram á Seyðisfirði 15. – 21. júlí og má búast við talverðum fjölda fólks. Lögreglan hvetur vegfarendur til að fara varlega og gesti hátíðarinnar að ganga hægt inn um gleðinnar dyr.