24 Janúar 2018 08:51

Þessa daga eru 156 mál skráð hjá lögreglu á Austurlandi. Eins og árstíðin gefur tilefni til þá eru aðstoðarbeiðnir vegna ökumanna í vanda vegna ófærðar nokkuð fyrirferðamiklar. Einnig voru nokkur tjón vegna mikils vatnsveðurs sem komu inn á borð lögreglu og voru þar hvað stærst aurflóð bæði við sunnanverðan Reyðarfjörð og í Breiðdal.

Tveir ökumenn voru teknir grunaðir um ölvun við akstur á þessum tíma og nokkur umferðaróhöpp. Þá kom upp þjófnaðarmál og tvö mál tengd skemmdaverkum sem öll eru í rannsókn hjá lögreglu. Einnig slasaðist reiðmaður er hestur hans fældist með þeim afleiðingum að hann kastaðist af baki.

Þá er Þorrinn gengin í garð með tilheyrandi skemmtan og voru þorrablót vítt og breitt um umdæmið liðna helgi og verða áfram. Fóru þær skemmtanir vel fram að mestu og minnir lögregla fólk á að skemmta sér fallega og ganga hægt um gleðinnar dyr.

Þá vill lögregla árétta að alltaf er hægt að koma á framfæri við hana upplýsingum um fíkniefni, eða hvaða önnur mál, sem almenningur telur að hana varði, nafnlaust.