27 Desember 2017 15:38

Þessa daga voru 165 mál skráð hjá lögreglunni á Austurlandi af ýmsum toga. Fyrirferðarmestar eru ýmsar aðstoðarbeiðnir tengdar ófærð í umdæminu en ferðamenn hafa verið í töluverðum vandræðum vegna þess bæði á fjallvegum og láglendi.
Þá hefur því miður borið á því að lokanir á fjallvegum hafa ekki verið virtar og því þurft að koma til aðstoð björgunarsveita og annara aðila til að ná fólki og faratækjum þaðan aftur. Er það brýnt að fólk sem hyggur á ferðalög á þessum árstíma kanni vel veðurspá og upplýsingar hjá Vegagerðinni um færð á vegum áður en haldið er á stað.
Þá er því einnig beint að ferðaþjónustuaðilum að aðstoða erlenda ferðamenn við að leita upplýsinga um veður og færð áður en þeir halda ferðalagi sínu áfram því á þessum árstíma er allra veðra von og færð fljót að spillast.

Þá voru tveir ökumenn teknar fyrir of hraðan akstur í umdæminu á þessu tímabili og einnig urðu nokkur umferðaróhöpp sem lögregla kom að ásamt ýmsum öðrum verkefnum af mismunandi toga.

Þá vill lögregla árétta við foreldra og forráðamenn að hafa í huga útivistartíma barna og unglinga og einnig að brýna fyrir þeim aðgát í umgengni við flugelda en sú sala er nú að hefjast. Eigum slysalaus áramót og njótum þeirra saman.

Um áramót vill lögreglan á Austurlandi þakka samstarf við íbúa landsfjórðungsins og óska þeim, sem og landsmönnum öllum, gleðilegs nýs árs. Þá vill lögregla senda björgunarsveitum á svæðinu sérstakar kveðjur og þakkir fyrir samstarfið á árinu sem hefur að venju verið ómetanlegt í alla staði.